lgn.is - 18.05.2016 Breyting á röðun lyfja í ATC flokki N03AX16 (pregabalin) í viðmiðunarverðflokka
Hafðu samband

LYFJASTOFNUN

Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík

Sími 520 2100

Netfang: [email protected]


 

 

18.05.2016 Breyting á röðun lyfja í ATC flokki N03AX16 (pregabalin) í viðmiðunarverðflokka
18.05.2016 - 18.05.2016 Breyting á röðun lyfja í ATC flokki N03AX16 (pregabalin) í viðmiðunarverðflokka

Á 240. fundi lyfjagreiðslunefndar þann 9. maí sl. ákvað nefndin að breyta röðun lyfja í ATC flokki N03AX16 í viðmiðunarverðflokka með þeim hætti að lyfin verði flokkuð saman með tilliti til ábendinga, þ.e. lyf í ATC flokki N03AX16 með ábendingarnar taugaverki, flogaveiki og almenna kvíðaröskun flokkast saman í viðmiðunarverðflokk og lyf með ábendingarnar flogaveiki og almenna kvíðaröskun flokkast saman í viðmiðunarverðflokk.

Lyfjagreiðslunefnd leitaði umsagnar Lyfjastofnunar vegna þessa máls. Í umsögn stofnunarinnar kom meðal annars fram að í þeim tilvikum sem frumlyf og samheitalyf hafa ekki sömu ábendingar kemur upp sú staða að þegar lyfi er ávísað en annað lyf afgreitt fá sjúklingar ekki alltaf fylgiseðil með upplýsingum sem við eiga um sjúklinginn.  Í ljósi mikilvægis þess að sjúklingar fái réttar og fullnægjandi upplýsingar um lyfið og tilætlaða notkun þess taldi nefndin rétt að raða lyfjunum í viðmiðunarverðflokka að teknu tilliti til ábendinga. Þessi breyting er í samræmi við flokkun lyfjanna í viðmiðunarverðflokka í Noregi og Danmörku. Breytingin tekur gildi 1. júní n.k.

Lyfjagreiðslunefnd raðar samheitalyfjum og lyfjum með sambærileg meðferðaráhrif í viðmiðunarverðflokka til ákvörðunar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga sbr. 43. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Við mat á því hvort lyf teljast útskiptanleg tekur lyfjagreiðslunefnd m.a. mið af ákvörðunum um jafngildi lyfja sem teknar hafa verið í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, eftir því sem upplýsingar þar að lútandi eru aðgengilegar á heimasíðum viðkomandi stofnana. Í vafaatriðum er leitað álits Lyfjastofnunar.